Kjarnhiti í kjöti, mældur þegar það er tekið úr ofninum:
Nautakjöt – rautt (rare) = 55-60°
Nautakjöt – meðal steikt (medium) = 60-65°
Nautakjöt – gegnsteikt (well done) = 65-68°
- Það er best að elda nautakjöt þegar það er við stofuhita. Þess vegna er gott að taka það út úr ísskápnum minnst tveimur tímum áður en það er eldað.
- Hægt er taka nautasteikurnar úr frysti 5-6 dögum áður en þær eru eldaðar og láta þær þiðna í ísskáp. Við það halda þær áfram að meyrna og verða mjúkar og safaríkar við eldun.
- Meyr nautasteik ætti ávallt að vera borin fram léttsteikt þannig að gæði kjötsins njóti sín sem best.
- Þó að góð nautapiparsteik sé líklega þekktasta steik í heimi er algengast að nautakjöt sé aðeins kryddað með salti og pipar til að leyfa bragðgæðum kjötsins að njóta sín.
- Það er ekki sama hvernig kjötið er skorið. Það á alltaf að skera nautakjöt þvert á vöðvann þ.e. vöðvaþræðina. Í flestum steikum liggja vöðvaþræðirnir langsum eftir allri steikinni Ávallt skal fylgjast vel með hvernig vöðvaþræðirnir liggjaNautasteikur sem henta vel á grillið eru sneiðar úr framhrygg (rib eye) sem margir telja bestu steikina, sneiðar úr framhryggjafillet eru frábærar grillsteikur ef fituinnvaf vöðvans er nægjanlegt. Entrecoté er steik úr nautafillet með fiturönd utan á. T-bein og Porterhouse, sem nánast eru sömu steikurnar, eru frábærar á grillið. Þá eru lundirnar alltaf mjög meyrar og hægt að steikja þær bæði í heilu og í steikum.
- Þegar kjöt er barið með buffhamri er bæði verið að laga steikurnar til þannig að þær séu svipaðar á þykkt og taki þar með sama tíma í eldun. Ef notaður er tenntur buffhamar er verið að slíta sundur vöðvaþræðina þannig að steikin sé meyrari undir tönn.
- Nautakjöt er ávallt grillað við snarpan hita og látið brúnast vel að utan, þar sem stór hluti af bragði góðrar nautasteikur liggur í því hversu vel brúningin heppnast.
- Við mælum með að steikurnar flatsteik og klumpur séu steiktar í heilu lagi. Fyrst brúnaðar á pönnu og síðan steiktar í ofni. Einnig er gott að grilla þær. Þá er gott að snögg steikja þær á háum hita allan hringinn og síðan slökkva fyrir hitann á öðrum helmingi grillsins og leggja steikina þar. Miða má við að 1 kg af kjöti þurfi ca. 30 mín steikingu eða þangað til kjötmælirinn sýnir 55-60°C.
- Þegar nautasteikur eru steiktar í heilu lagi er best að láta þær hvíla í ca. 10-15 mínútur eftir steikingu, áður en þær eru skornar. Gott er að leggja yfir þær álpappír og viskustykki á meðan beðið er.
- Bragðmikið kryddsmjör hentar sérlega vel ofan á góða nautasteik.